UM SAMFÉS

Samfés (Youth Work Iceland), landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð að Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík þann 9. desember árið 1985.

Markmið Samfés

  • Að auka samskipti og samvinnu félagsmiðstöðva og ungmennahúsa.
  • Að halda úti og styðja við öflugt lýðræðislega kjörið Ungmennaráð Samfés.
  • Að halda út og styðja við öflugt starf Ungmennaráðs ungmennahúsa Samfés.
  • Að efna til og taka þátt í verkefnum á innlendum og erlendum vettvangi sem tengjast málefnum ungs fólk.
  • Að stuðla að aukinni félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks á Íslandi.
  • Að stuðla að eflingu fag- og símenntunar starfsfólks á vettvangi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa.
  • Að koma á framfæri upplýsingum um starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa og undirstrika vægi þeirra í nútíma samfélagi.
  • Að hafa áhrif á umræðu, hugmyndir og löggjöf um æskulýðsmál á Íslandi.

Á aðalfundi Samfés hefur starfsfólk ungmennahúsa og félagsmiðstöðva tækifæri til að bjóða sig fram í nefndir sem tengjast starfsemi og viðburðum Samfés. Helstu nefndir eru: Starfsdaganefnd, ungmennahúsanefnd, mótanefnd, Stíll-undirbúningsnefnd, markaðsnefnd og nefnd sem sér um Samfés-Con. Hérna er hægt að sjá samantekt úr sögu Samfés frá 1985-2015.

Félagsmiðstöð, eins og við þekkjum hana í dag, er afdrep þar sem unglingar á aldrinum 13-16 ára geta varið frítíma sínum án áfengis og vímuefna.. Hlutverk félagsmiðstöðva er að stuðla að jákvæðum þroska unglinga og gera þau sjálfstæðari, bæði í verki og félagslegum samskiptum og gera þau hæfari til að takast á við lífið.

Saga félagsmiðstöðva á Íslandi

Í kringum 1955 fer mönnum að verða ljóst að einhverskonar afdrep fyrir unglinga vantaði. Í kjölfarið var Æskulýðsráð Reykjavíkur stofnað árið 1956 og út frá því Tómstundarheimilið við Lindargötu sama ár. Starfsemin sem þar fór fram má líkja við það starf sem fram fer í félagsmiðstöðvum í dag. Þar var það þó aðeins starfandi til ársins 1964 eða þar til það flutti að Fríkirkjuvegi 11 þar sem það starfaði í kjallara hússins til ársins 1971. Árið 1962 stofnuðu Siglfirðingar æskulýðsheimili þar í bæ sem gegndi svipuðu hlutverki og félagsmiðstöð gerir í dag. Tónabær hóf síðan starfsemi sína árið 1969, Æskulýðsheimilið að Flatahrauni í Hafnarfirði var einnig sett á laggirnar sama ár. Árið 1972 stofnuðu Akureyringar Dynheima, 1974 tók Fellahellir til starfa, 1975 hóf félagsmiðstöð Selfyssinga starfsemi sína og upp úr því byrjar blómaskeið félagsmiðstöðvanna þar sem þær spruttu upp hver á fætur annarri t.d. í Keflavík, Garðabæ, Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki.

Í dag geta félagsmiðstöðvar verið nokkuð breytilegar að stærð og gerð og með ólíkum áherslum. Í starfi þeirra eru þó nokkrir þættir sameiginlegir. Þeir eru í grófum dráttum viðurkennt tómstundastarf, forvarnir, fræðsla, örvun félagsþroska og jákvæðra samskipta. Þó svo að fyrstu félagsmiðstöðvarnar hafi ekki komið til sögunnar fyrr en á sjöunda áratugnum ber að hafa í huga að ungmennafélögin í landinu sinntu merkilegu ungmenna-, æskulýðs- og menningarstarfi auk auðvitað íþróttanna áður en til sérstakra félagsmiðstöðva kom. Má segja að ungmennafélögin hafi verið undanfarar félagsmiðstöðva á Íslandi með íþróttir, leiklist, ræðumennsku og samkomur af ýmsu tagi sem afþreyingu fyrir jafnt unga sem aldna.