Leggja til aukinn stuðning við börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu á Íslandi vegna COVID-19

}

29.4.2020

Sameiginleg yfirlýsing UNICEF á Íslandi, Bergsins Headspace, Ungmennahússins á Akureyri, Virkisins, SAMFÉS og ungmennaráðs UNICEF vegna ungmenna í viðkvæmri stöðu á tímum Covid-19

 Yfirlysing
29. apríl 2020     
Á tímum óvissu, kvíða og nýrra áskorana hvað varðar skóla, frístundir og sumarstörf er mikilvægt að efla enn frekar faglegt og skipulagt starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á landsvísu til þess að styðja betur við ungmenni og viðkvæma hópa. Ungmenni hafa verulegar áhyggjur af námi, brotthvarfi, atvinnuleysi; þau upplifa tilgangsleysi og að ekki sé verið að bjóða þeim þátttöku í samtalinu um starfið á vettvangi. Því þarf að tryggja virka aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku og þarfagreiningu á úrræðum þeim til handa.   

UNICEF, Bergið Headspace, Virkið, SAMFÉS og ungmennaráð UNICEF leggja hér fram tillögur að aðgerðum sem styðja við ungmenni í viðkvæmri stöðu. Aðgerðirnar byggja á upplifun ungmenna og fólksins sem starfar á vettvangi og beinast jafnt að stjórnvöldum og sveitarfélögum.  

Með snemmtækri íhlutun og aðgerðaráætlun er lýtur að æskulýðsstarfi á landsvísu má vinna leiðir og lausnir sem hægt er að ganga í hratt og örugglega. Útfæra þarf næstu skref með því að tryggja aukið fjármagn í æskulýðsstarf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á landsvísu í sumar og haust. Samfélagið þarf að vera til staðar og styrkja þarf þau úrræði sem eru til staðar, en til lengri tíma sparar það ríkinu fé.

Á sama tíma þarf að huga að og efla starfsfólk á vettvangi, sem einnig er að aðlagast breyttum aðstæðum og starfsháttum í mikilvægu forvarnarstarfi. Það er best gert með því að bjóða uppá fræðslu, símenntun og aukið aðgengi að fræðsluviðburðum eins og Starfsdögum Samfés og fræðslu um tilkynningarskyldu starfsmanna með rafrænum hætti.   

Aðilar sem standa að yfirlýsingunni fagna ákvörðun stjórnvalda að veita auknu fjármagni til íþrótta- og æskulýðsstarfs en benda jafnframt á mikilvægi þess að veita auknu fjármagni til aðgerða sem snúa að virkni og andlegri heilsu. Þessi tími skipulagðrar einangrunar á heimsvísu hefur afleiðingar og þá sérstaklega á ungmenni í viðkvæmri stöðu. Afleiðingarnar hafa áhrif á alla framtíð þeirra. Mikilvægt er að bregðast við með samræmdum hætti og tryggja stuðning til lengri tíma.

Við leggjum til að þau sveitarfélög sem halda úti starfsemi ungmennahúsa hefji markvisst samstarf til að veita snemmtæka íhlutun, þau komi í veg fyrir að ungmenni falli á milli kerfa og setji á laggirnar fyrirkomulag þar sem unnið er þverfaglega á milli þjónustukerfa sveitarfélaga, með heildrænni nálgun á málefni ungmenna.   

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, er Íslandi skylt að virða og tryggja hverju barni innan sinnar lögsögu þau réttindi sem sáttmálinn kveður á um og á það við um öll börn á aldrinum 0-18 ára. Barnasáttmálinn gildir um öll börn á Íslandi. Til þess að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir sem eru börnum fyrir bestu þurfa þau að vega og meta möguleg áhrif þeirra á líf barna í nútíð og framtíð, með hliðsjón af öðrum ákvæðum Barnasáttmálans, svo sem um rétt barna til að lifa og þroskast við bestu mögulegu aðstæður. Þá er sérstaklega mikilvægt að veita börnum tækifæri til að tjá sig og taka tillit til sjónarmiða þeirra, í samræmi við aldur þeirra og þroska. Stjórnvöldum ber að taka allar sínar ákvarðanir er varða börn og ungmenni með það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Sömuleiðis er þeim skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá til þess að barni séu tryggð tækifæri til menntunar, tómstunda og aðgengi að bestu mögulega heilbrigðisþjónustu.   

Í 3. grein sáttmálans segir:  „Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.”  

Af þessu tilefni hafa þau félög sem standa að þessari yfirlýsingu ákveðið að óska eftir fundi með mennta-og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, félags- og barnamálaráðherra og ungmennum til að fara yfir stöðu mála og leggja fyrir þá tillögur um aukinn stuðning við  börn og ungmenni sem eiga undir högg að sækja.  

Það sem við leggjum til er að:

  • Styðja sveitarfélög til þess að vinna þvert á þjónustustig varðandi virkniúrræði. Nýta sér reynslu Virkisins á Akureyri á því sviði.
  • Skapa atvinnutækifæri fyrir ungmenni með nýsköpun, menningu þeirra og listir að leiðarljósi. Skapa tækifæri á sviði sveitarfélagana til að bjóða fleiri ungmennum  sumarvinnu undir handleiðslu flokkstjóra.
  • Ofbeldi eykst á tímum samfélagslegra áfalla. Því er mikilvægt að auka fræðslu um tilkynningarskylduna í formi myndbanda, bæklinga og með rafrænum hætti sem auðvelt er að dreifa til starfsfólks og almennings.
  • Fjármagna og styðja við starfsemi Samfés til að tryggja aukna starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, samhæfingu þeirra og samstarf við þau félög og stofnanir sem sinna málefnum ungs fólks á landsvísu. Með þeim aðgerðum er einnig verið að tryggja stuðning og fræðslu við starfsfólk á vettvangi frítímans um allt land.
  • Kynna þá þjónustu sem stendur ungmennum til boða líkt og þann andlega stuðning og ráðgjöf sem veittur er í Berginu og styðja við að Bergið Headspace veiti ráðgjöf innan ungmennahúsa víðsvegar um landið.
  • Kynna starfsemi Virkisins og Ungmennahússins á Akureyri til annarra sveitarfélaga.
  • Efla ungmenni til virkrar þátttöku með því að bjóða uppá fjölbreytta valáfanga í grunnskólum í samstarfi við félagsmiðstöðvar.
  • Bjóða uppá aukinn stuðning og aðgengi ungmenna að starfs-og námsráðgjöf innan skóla.
  • Ráða sem fyrst fleiri sálfræðinga við framhaldsskóla landsins til að halda um áhættuhópa og veita ungmennum sem eiga erfitt með að leita sér aðstoðar, mögulega vegna fjárhags fjölskyldunnar, úrræði innan skólans.  
  • Auka nú þegar sálfræðiþjónustu og aðgengi að henni innan skóla og utan. Auðvelda aðgengi að ráðgjöf bæði í gegnum síma og internet en einnig augliti til auglitis.
  • Vinna markvisst að því að hlúa að viðkvæmum hópum ungmenna með fjölbreyttum úrræðum í samstarfi við félagasamtök sem starfa á vettvangi fræðslu og stuðnings fyrir ungmenni. 
  • Styðja það grasrótarstarf sem er til staðar nú þegar með fjármagni og skapa tækifæri í gegnum þau í samráði við ungmenni. 

Við skorum á stjórnvöld og sveitarfélög að virða réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum og taka allar ákvarðanir með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi.