Norræn ungmenni sameinuð á stafrænum leikvelli

}

14.11.2020

Um síðustu helgi fór fram norrænt rafíþróttamóti ungmenna „Nordic Esport United“ sem haldið var af Samfés og Ungdomsringen í Danmörku.

Þátttaka á mótinu var mjög góð og voru þátttakendur mótsins og áhorfendur sem fylgdust með í beinni útsendingu í báðum löndum mjög spenntir og ánægðir með þetta nýja og skemmtilega og landamæralausa rafíþróttamót ungmenna.

Norðurlandamótið var haldið að frumkvæði ungs fólks sem eru þátttakendur í samnorrænu samstarfsverkefni allra Norðurlandanna í verkefninu Menntun fyrir alla, þar sem áhersla er m.a. lögð á samtal ungs fólks um heimsmarkmið 4.7.

Markmið mótsins var að tengja og sameina ungmenni á norðurlöndunum, virkja þau og gefa þeim tækifæri á því að kynnast og taka þátt í þessum stafræna viðburði sem hægt er að halda án takmarkana á tímum COVID-19 og samkomubanns.

Á mótinu kepptu leikmenn í Fortnite (einstaklings og tveggja manna) og CS:GO (5 gegn 5 og 2 gegn 2). Hægt er að sjá úrslit keppninnar á www.samfes.is

Skráning fór fram í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum á Íslandi og hjá aðildarfélögum Ungdomsringen í Danmörku. Þátttaka á viðburðinum var ókeypis og glæsilegir vinningar í boði.

Þegar hafa borist fjölmargar óskir frá ungmennum að halda mótið árlega og þá helst tvisvar sinnum á ári. Við hjá Samfés og Ungdomsringen fögnum  virkri þátttöku ungmenna frá báðum löndunum og hlökkum til að halda annað mót og bjóða þá fleiri löndum að taka þátt.

Í framhaldi ætlum við ásamt okkar samstarfsaðilum á Norðurlöndunum að sækjum og standa að árlegum ungmennaskiptum í gegnum Erasmus+ sem veitir ungu fólki tækifæri að hitta jafnaldra frá öðrum Evrópulöndum, miðla reynslu  og koma til baka enn sterkari einstaklingar.

Í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum um allt land fer fram faglegt rafíþróttastarf þar sem unnið er með breiðan hóp ungs fólks. Nú á tímum COVID-19 er enn mikilvægara en áður að ná til unga fólksins, auka félagsfærni, draga úr félagslegri einangrun, virkja þau í daglegu starfi og í rafíþróttaklúbbum þar sem lögð er áhersla á faglega nálgun og heilbrigða spilahætti. Til þess að ná árangri þarf eins og í öðrum íþróttum að æfa sig reglulega, vinna saman, fara að leikáætlun, borða hollan mat, fá nægan svefn og vera almennt í góðu formi.

Við hvetjum foreldra til að kynna sér starfsemi og dagskrá félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, sýna tölvuleikjum og rafíþróttastarfi unga fólksins áhuga, kynna sér leikina sem þau spila og auðvitað helst prófa sjálf og skapa þannig dýrmætar samverustundir í kringum þeirra áhugamál.

Nánari upplýsingar veitir Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samfés í síma 897-5254.

Meðfylgjandi myndir eru frá Rafíþróttamóti Samfés og Félkó sem haldið var í íþróttahúsinu Digranesi 4.-5. maí 2019.