Eitt líf og Samfés

}

28.4.2021

Minningarsjóður Einars Darra var stofnaður af ástvinum Einars Darra í kjölfarið á því að hann lést skyndilega, aðeins 18 ára,  vegna lyfjaeitrunar þann 25. maí 2018. Sjóðurinn sem gengur undir nafninu Eitt líf stendur fyrir ýmsum fræðslu-, forvarnar- og vitundarvakningar verkefnum.

Í lok ársins 2019 skipaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Mennta- og menningarmála ráðherra ráðgjafahóp með helstu hagaðilum sem hefur og mun styðja við faglega framkvæmd verkefna á vegum Eins lífs.

Ráðgjafahópurinn er leiddur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu en í honum eru fulltrúar frá Embætti landlæknis, félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Grunni – félagi fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, Rannsókn & greiningu, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, skólameistarafélagi Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Menntamálastofnun og samtakanna Heimili og skóli.  

Eitt af verkefnunum sem við hjá Einu lífi, ásamt fjölda annarra höfum unnið að er „Hvert get ég leitað?“ rafræn úrræðaleitarvél. Leitarvélin er í grunninn rafrænn gagnagrunnur sem inniheldur lista yfir úrræði sem hægt er að leita til þegar vandasöm mál bera að garði sem varða og/eða tengjast geðheilbrigði, fíkn, ofbeldi, kynheilbrigði, félagsmála og vegna fráfalls ástvina. Hægt er að velja fleiri undirþætti, til dæmis kvíða, sjálfsvígshugsanir, stafrænt ofbeldi o.s.frv.

Til að kynna verkefnið þá hefur Samfés tekið að sér að sjá um dreifingu á plakötum, armböndum og halda fundi með stjórnendum félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. 

Starfsmenn félagsmiðstöðva og ungmennahúsa fá sent fræðslu myndband og umræðu punkta sem hægt er að nota til ræða við ungmennin. 

Hægt verður fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva og ungmennahúsa að nálgast plaköt og armbönd á skrifstofu Samfés. 

Úrræðaleitarvélina má finna inn á heimasíðunni  Eitt líf