Samstarfsverkefni fær veglegan styrk

}

11.5.2020

Byggjum brú þvert á skólastig í þágu ungs fólks.
Samstarfverkefni SAMFÉS, Kópavogsskóla (í samstarfi við félagsmiðstöðina Kjarnann), Álfhólsskóla og Menntaskólans í Kópavogi.

„Velkomin – Samfélag þar sem allir eiga heima“ hlaut veglegan styrk úr Sprotasjóði Menntamálaráðuneytisins sem er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi.

rsz untitled design12

Verkefnið miðar að því að bjóða ungmenni af erlendum uppruna og ungmenni sem eru ný í samfélaginu velkomin í skólann, félagsmiðstöðina, ungmennahúsið og samfélagið sjálft. Að allir upplifi sig velkomna í samfélagið, samfélag sem allir eiga heima í.  Victor Berg Guðmundsson (Samfés), Jóhanna Aradóttir (Menntaskólinn í Kópavogi), Halldór Hlöðversson (Kópavogsskóli – Kjarninn) og Donata H. Bukowska (Álfhólsskóli) munu leiða vinnu við verkefnið, í samstarfi við Menntasvið Kópavogsbæjar.

Markmið verkefnisins er m.a. að virkja ungmenni á aldrinum 10-20 ára í að vinna saman og auka ábyrgð meðal þeirra í að tryggja aukinn jöfnuð innan samfélagsins sem þau búa í og jafnt aðgengi allra að tækifærum og þjónustu. Við viljum virkja ungt fólk á mismunandi skólastigum í þróun verkefnisins og að frá upphafi verkefnisins verði það þeirra, þannig náum við að byggja upp sjálfbært samfélag með sjálfbærum og jákvæðum lífsstíl og jákvæðum hagvexti til framtíðar.

Með samstarfi Samfés, Kópavogsskóla, Álfhólsskóla og Menntaskólans í Kópavogi er verið að stíga stórt skref fram á við og byggja brú milli landssamtaka félagsmiðstöðva, ungmennahúsa, grunnskóla og framhaldsskóla, með hag ungs fólks að leiðarljósi.
Samstarfsverkefnið, sem leitt er af Samfés, byggir á “Velkomin prógramminu” sem er þróunarverkefni tveggja deilda Menntasviðs Kópavogsbæjar (grunn- og frístundadeildar) og leitt af Donötu H. Bukowska og Halldóri Hlöðverssyni. Velkomin prógrammið hefur verið unnið í samstarfi skólastofnana, félagsmiðstöðva og vinnuskóla Kópavogsbæjar og hefur verið í þróun frá árinu 2018.