Ungmennaráð Samfés afhendir niðurstöður Landsþings til ráðherra.

}

4.11.2024

🌟 Ungmennaráð Samfés afhendir niðurstöður Landsþings til ráðherra

Laugardaginn 2. nóvember hélt Ungmennaráð Samfés sérstakan gistifund í Holtinu þar sem Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, tók á móti niðurstöðum frá Landsþingi ungs fólks. Á þinginu höfðu ungmennin rætt málefni sem þau telja mikilvæg fyrir framtíð sína og samfélagið í heild, og helstu niðurstöðurnar voru kynntar fyrir ráðherra á þessum fundi.

Á fundinum komu fram spurningar frá ungmennunum sem endurspegluðu þeirra helstu áherslumál og vangaveltur. Þær beindust meðal annars að kennaraverkfallinu og áhrifum þess á nám þeirra, ásamt því hvernig bæta mætti grunnskólana á landsbyggðinni. Einnig kom fram spurning um hvernig stjórnvöld geta betur stutt við fræðslu og eflt grunnþjónustu fyrir ungt fólk á landsvísu. Ráðherra svaraði spurningunum og tók þátt í opinskáum umræðum um hvernig hægt væri að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir ungt fólk.

Við hjá Samfés erum ótrúlega stolt af Ungmennaráðinu okkar – þau voru geggjuð og sýndu mikla færni í að tjá skoðanir sínar og spyrja mikilvægra spurninga sem skipta þau máli. Fundurinn undirstrikar mikilvægi þess að ungt fólk fái rödd í samfélaginu, og við höldum áfram að styðja þau í að koma sínum málefnum á framfæri.