Svör stjórnmálaflokkanna við spurningum Samfés
Við hjá Samfés sendum spurningalista á alla stjórnmálaflokkana fyrir komandi kosningar. Okkur langaði að heyra hvað flokkarnir hefðu að segja um málefni ungs fólks, sérstaklega þegar kemur að tómstundastarfi og mikilvægi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Þetta eru mikilvæg málefni sem snerta ungt fólk víða um landið og því er mikilvægt að vita hvernig stjórnmálaflokkar standa gagnvart þeim.
Fimm flokkar svöruðu spurningalistanum okkar. Þeir flokkar sem svöruðu voru Viðreisn, Framsókn, Vinstri græn (VG), Píratar og Samfylkingin.
Hér er stutt samantekt á þeirra svörum og hægt er að lesa ítarlegri svör flokkanna hér fyrir neðan.
Viðreisn:
Styðjið þið ný æskulýðslög og munið þið beita ykkur fyrir því að lögfesta félagsmiðstöðvar og ungmennahús?
Viðreisn styður endurskoðun æskulýðslaganna og vill gera það í sem mestu samráði við ungt fólk. Gríðarlega mikilvægt starf er unnið í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum og Viðreisn vill styðja við þetta starf og tryggja aðgang allra ungmenna að þeirri góðu starfsemi sem þar fer fram.
Hvernig ætlið þið að reyna draga úr ofbeldishegðun unglinga og barna og tryggja öryggi allra barna á Íslandi (hinsegin, af erlendu bergi brotin og svo framv, )?
Börnum og unglingum líður því miður ekki öllum vel. Kvíði og þunglyndi er vaxandi vandi samkvæmt rannsóknum. Ofbeldi, ótti og fíkniefnaneysla færast í aukana sem við sjáum á skelfilegum atburðum sem hafa snert við okkur öllum. Hnífaburður unglinga er orðinn landlægt vandamál sem við verðum að taka á. Það er annað af tveimur helstu kosningamálum Viðreisnar að takast á við þennan vanda. Biðlistar eftir greiningum og annarri þjónustu eru langir og bið eftir viðeigandi aðstoð sömuleiðis. Þetta eru mál sem við sem samfélag þurfum að leysa. Við þurfum að styðja við alla sem koma að uppeldi og umönnun barna og unglinga. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Allt þetta fólk verður að fá að móta aðgerðir í samstarfi við næstu ríkisstjórn. Þetta má ekki bíða þar sem aðgerðaleysi bitnar á okkur öllum. Við viljum efla skólana okkar, forvarnir og fræðslu, bjóða ókeypis sálfræðiþjónustu og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri. Fyrirbyggjandi aðgerðir veita börnum gott veganesti inn í framtíðina og minnka líkurnar á að þau leiðist út í fíkniefni, afbrot og glæpi. Viðreisn vill að opnuð verði fleiri úrræði og tryggt að börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á stuðningi að halda detti ekki á milli kerfa.Börn eiga ekki að vera á biðlistum.
Viðreisn ætlar að:
- Setja í forgang að vinna niður biðlista barna.
- Tryggja ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir börn.
- Efla forvarnir og tryggja meðferðarúrræði, öryggi og velferð barna og ungmenna
Hvað teljið þið mikilvægt að gera til að efla gott tómstundastarf á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni á landsvísu?
Viðreisn vill stuðla að uppbyggingu á félags- og tómstundastarfi um land allt. Tryggja skal jafnt aðgengi barna, óháð efnahag, uppruna, getu og búsetu, að skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri. Slíkt getur af sér víðsýna einstaklinga með sterka sjálfsmynd og hæfni til að takast á við ný og óþekkt störf framtíðar. Viðreisn vill leita allra leiða til að fá börn og unglinga af erlendu uppruna til þátttöku í félags- og tómstundastarfi. Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir og að þátttakendum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, uppruna eða ólíkrar getu.
sjá meira um stefnu Viðreisnar Mennta-, menningar-, félags- og tómstundamál – Viðreisn
Framsókn:
- Hvað eruð þið að gera fyrir ungmenni í dag ?
Framsókn er að vinna að fjölmörgum verkefnum til að styðja við ungmenni í dag. Flokkurinn leggur áherslu á að lögfesta starfsemi félagsmiðstöðva og fjölga ungmennahúsum, sem veita ungmennum öruggt og styðjandi umhverfi. Jafnrétti til náms er einnig í forgrunni, þar sem Framsókn vill efla samfélagsvitund hjá ungu fólki og styðja við þátttöku þeirra í fjölbreyttum samfélagsverkefnum.
Geðheilsa ungmenna er mikilvæg og Framsókn vinnur að því að efla geðheilbrigðisþjónustu með því að tryggja tímanlegt aðgengi og nauðsynlegan stuðning. Íþrótta- og tómstundastarf er einnig í brennidepli, þar sem flokkurinn vill tryggja að öll börn og ungmenni hafi aðgang að slíkum tækifærum, óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum.
Að auki hefur Framsókn kynnt aðgerðir til að draga úr ofbeldi meðal barna og ungmenna, með áherslu á snemmtæk inngrip og fyrirbyggjandi aðgerðir.
- Styðjið þið ný æskulýðslög og munið þið beita ykkur fyrir því að lögfesta félagsmiðstöðvar og ungmennahús?
Framsókn styður ný æskulýðslög og leggur áherslu á að lögfesta starfsemi félagsmiðstöðva. Flokkurinn vill einnig fjölga ungmennahúsum til að tryggja að ungmenni hafi aðgang að öruggum og styðjandi umhverfum. Þetta er hluti af stefnu Framsóknar til að efla velferð og stuðning við ungmenni í samfélaginu.
- Hvernig ætlið þið að stuðla að bættri geðheilsu barna og ungmenna?
Framsókn leggur mikla áherslu á að bæta geðheilsu barna og ungmenna með ýmsum aðgerðum. Flokkurinn vill tryggja tímanlegt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og að börn og ungmenni fái nauðsynlegan stuðning innan eðlilegs tímaramma. Einnig er lögð áhersla á að auka fjárfestingu í geðheilbrigðisþjónustu og fylgja eftir uppbyggingaráformum, eins og nýju húsnæði geðdeildar Landspítala. Framsókn vill einnig efla geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði sem grundvöll geðheilbrigðis einstaklinga. Notendamiðuð þjónusta á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustunnar er í forgrunni, og flokkurinn telur skynsamlegt að efla 1. stigs geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar til að styðja við snemmtæk inngrip og fyrirbyggja frekari veikindi.
- Hvernig ætlið þið að reyna draga úr ofbeldishegðun unglinga og barna?
Framsókn hefur kynnt aðgerðir til að draga úr ofbeldishegðun meðal unglinga og barna með áherslu á snemmtæk inngrip og fyrirbyggjandi aðgerðir. Flokkurinn vinnur að því að efla samstarf við stofnanir og samtök sem vinna að réttindum og velferð barna, eins og Barnaheill, til að koma í veg fyrir einelti og ofbeldi. Einnig er lögð áhersla á að styðja við verkefni sem stuðla að jákvæðum samskiptum og vináttu meðal barna, eins og forvarnarverkefnið Vinátta. Framsókn vill tryggja að börn og ungmenni fái nauðsynlegan stuðning og fræðslu til að takast á við erfiðar aðstæður og stuðla að heilbrigðum samskiptum.
- Hvernig viljið þið tryggja öryggi allra barna á Íslandi (hinsegin, af erlendu baki brotni)?
Framsókn leggur mikla áherslu á að tryggja öryggi allra barna á Íslandi, þar á meðal hinsegin barna og barna af erlendum uppruna. Flokkurinn vill tryggja að öll börn fái nauðsynlegan stuðning og að skólakerfið sé í stakk búið til að mæta þörfum þeirra. Þetta felur í sér að efla kennslu í íslensku sem öðru máli og auka stuðning við leikskóla og framhaldsskóla til að taka á móti börnum með erlendan uppruna.
Framsókn vill einnig tryggja að mannréttindi barna séu virt og að hagsmunir þeirra séu í forgrunni við ákvarðanatöku. Flokkurinn leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög hafi sameiginlega heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Að auki vill Framsókn efla samfélagsfræðslu sem hluta af inngildingu í íslenskt samfélag og auka þekkingu innflytjenda á eigin réttindum, tækifærum og skyldum.
- Hvernig ætlið þið að tryggja að íþrótta- og tómstundastarf og listnám sé aðgengilegt fyrir öll börn og þá sérstaklega jaðarhópa?
Framsókn leggur áherslu á að tryggja að íþrótta- og tómstundastarf, sem og listnám, sé aðgengilegt fyrir öll börn, þar á meðal börn í jaðarhópum. Flokkurinn vill jafna aðgengi að íþróttum og afreksstarfi óháð búsetu og auðvelda aðgengi fatlaðra barna að íþrótta- og æskulýðsstarfi. Einnig er lögð áhersla á að auðvelda aðgengi barna með erlendan menningar- og tungumála bakgrunn að slíkum tækifærum.
Framsókn vill auka fjárveitingar til íþrótta- og æskulýðsstarfs til að mæta kostnaði við þátttöku barna og tryggja jafnrétti til þátttöku. Flokkurinn styður einnig við uppbyggingu fræðslu- og þekkingarseturs hugaríþrótta og vill stórauka fjármagn til afreksstarfs í íþróttum.
- Hvernig ætlið þið að auka fjármagn þegar kemur að skóla, íþrótta- og tómstundastarfi og listnámi ?
Framsókn leggur áherslu á að auka fjármagn til skóla, íþrótta- og tómstundastarfs og listnáms með ýmsum aðgerðum. Flokkurinn vill tryggja að fjárveitingar til menntakerfisins séu í takt við þarfir nemenda og að skólarnir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Þetta felur í sér að endurhugsa fjárveitingar til framhaldsskóla á grundvelli þjónustuþarfa nemenda.
Framsókn vill einnig auka fjárveitingar til íþrótta- og æskulýðsstarfs til að mæta kostnaði við þátttöku barna og tryggja jafnrétti til þátttöku. Flokkurinn styður við uppbyggingu fræðslu- og þekkingarseturs hugaríþrótta og vill stórauka fjármagn til afreksstarfs í íþróttum.
Að auki vill Framsókn efla nýsköpun og fjárfestingar í menntakerfinu til að tryggja að það sé í takt við þarfir atvinnulífsins og samfélagsins.
- Hvað teljið þið mikilvægt að gera til að efla gott tómstundastarf á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni á landsvísu?
Framsókn telur mikilvægt að efla gott tómstundastarf á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni með því að tryggja aðgengi að fjölbreyttum og aðlaðandi tómstundastarfi um allt land. Flokkurinn vill lögfesta starfsemi félagsmiðstöðva og fjölga ungmennahúsum til að tryggja að ungmenni hafi aðgang að öruggum og styðjandi umhverfum. Jafnt aðgengi er í forgrunni, þar sem Framsókn leggur áherslu á að jafna aðgengi að tómstundastarfi óháð búsetu, efnahag eða félagslegum aðstæðum, til að tryggja að öll börn og ungmenni hafi tækifæri til að taka þátt.
Framsókn vill einnig efla fjölbreytni í tómstundastarfi með því að bjóða upp á mismunandi tegundir af starfi sem henta ólíkum áhugamálum og þörfum barna og ungmenna. Öflugt samstarf ríkis og sveitarfélaga er lykilatriði til að samræma þjónustu og stuðla að heildrænni nálgun í tómstundamálum. Að auki vill Framsókn auka fjárveitingar til tómstundastarfs til að mæta kostnaði við þátttöku barna og tryggja jafnrétti til þátttöku.
- Hvernig ætlið þið að vinna að forvörnum gegn áfengisneyslu og nikotínnotkun ungmenna, samhliða auknu aðgengi?
Framsókn leggur áherslu á skaðaminnkandi nálgun í áfengis- og fíkniefnamálum til að vinna að forvörnum gegn áfengisneyslu og nikótínnotkun ungmenna. Flokkurinn styður heildstæða stefnumótun sem tekur til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferða og endurhæfingar. Framsókn telur mikilvægt að draga úr neyslu áfengis, tóbaks og nikótínvara í samræmi við áætlanir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Framsókn vill viðhalda einkasölu ríkisins á áfengi og leggst gegn lögfestingu heimildar til reksturs innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda, í ljósi mikilvægra lýðheilsusjónarmiða. Flokkurinn telur einnig skynsamlegt að nikótínvörur falli undir tóbakslöggjöf stjórnvalda.
- Hver er ykkar skoðun á því að lækka kosningaaldur niður í 16 ára?
Framsókn hefur ekki tekið afstöðu til lækkunar kosningaaldurs. Þegar er heimilt fyrir sveitarstjórnir að miða kosningaaldur í íbúakosningum við 16 ár.
Lækkun kosningaaldurs myndi veita ungu fólki meiri rödd í samfélaginu, leyfa þeim að hafa bein áhrif á ákvarðanir sem hafa áhrif á þeirra framtíð og auka jafnframt áhuga á stjórnmálum.
Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar nálgist ungt fólk á þeirra forsendum og kynni sín málefni. Að ungt fólk fái fræðslu og tækifæri til að taka þátt í umræðum um stjórnmál og lýðræði í skólum. Framsókn hefur sýnt það í verki að flokkurinn treystir ungu fólki til þátttöku í stjórnmálum. Við erum með yngsta kjörna þingmanninn á Alþingi, yngsta borgarfulltrúa sögunnar og yngsta sveitarstjórann. Framsókn leggur áherslu á að hlusta á raddir ungs fólks og veita þeim vettvang til að hafa alvöru áhrif á sitt samfélag.
- Er eitthvað annað sem þið viljið koma á framfæri um málefni ungs fólks?
Framsókn er staðráðin í að styðja ungt fólk á Íslandi og skapa umhverfi þar sem það getur blómstrað og nýtt hæfileika sína til fulls. Við viljum efla samfélagsvitund hjá ungu fólki og opna dyrnar að fjölbreyttum tækifærum til þátttöku í samfélagsverkefnum. Við trúum því að ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára sé framtíðin og viljum tryggja að það fái allan þann stuðning og úrræði sem það þarf til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.
Við stefnum að því að móta sérstaka ungmennastefnu fyrir Ísland, þar sem við setjum skýr markmið og aðgerðir til að efla ungt fólk. Með snemmtækri íhlutun á öllum skólastigum og þvert á kerfi viljum við tryggja að ungt fólk fái þann stuðning sem það á skilið.
Við erum spennt fyrir framtíðinni og hlökkum til að sjá ungt fólk nýta hæfileika sína og taka virkan þátt í samfélaginu.
Vinstri græn:
Styðjið þið ný æskulýðslög og munið þið beita ykkur fyrir því að lögfesta félagsmiðstöðvar og ungmennahús?
VG styður lögfestingu félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Á landsfundi hreyfingarinnar 2023 var sérstaklega ályktað um starfsemi ungmennahúsa enda hafa þau átt sérstaklega erfitt með að ná almennilegri festu í sveitarfélögum landsins. Varðandi ný æskulýðslög þá styðjum við eindregið þá vinnu sem er hafin enda komin þörf á ný lög og breytingar í málaflokki sem hefur vaxið mikið seinustu ár í samfélagi sem mikið hefur breyst seinustu áratugi.
Það er nauðsynlegt að tryggja stöðu félagsmiðstöðva og ungmennahúsa í því samfélagi sem börn og ungmenni alast upp í dag og nútímavæða æskulýðslögin.
Hvernig ætlið þið að draga úr ofbeldishegðun unglinga og barna og tryggja öryggi allra barna á Íslandi (hinsegin, af erlendu baki brotni)?
Það þarf að efla forvarnir fyrst og fremst og þar er starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa gríðarlega mikilvæg. Lykilatriðið er að vinna með unglingum og börnum og fá þau með í að bregðast við þeim ótta og ofbeldi sem hefur vaxið í þeirra samfélagi. Það gerum við best með því að efla starfsemi þeirra sem vinna með börnum og unglingum. Félagsmiðstöðvar og ungmennahús hafa ákveðna sérstöðu þegar kemur að þessum málum. Þekking þeirra og skilningur á samfélagi unglinga og ungmenna er umfram aðrar tómstundir í ljósi þeirrar faglegu vinnu sem hefur byggst upp seinustu áratugi. Það óformlega markvissa starfs sem félagsmiðstöðvar og ungmennahús sinna eykur mikilvæga tengslamyndun og sem er nauðsynleg til að draga úr ofbeldishegðun og tryggja öryggi.
VG hefur seinustu ár lagi mikinn metnað í að styrkja stöðu hinsegin fólks. Við munum ekki draga úr því og það sama á við innflytjendur. Fjölbreytt samfélag er öllum börnum og unglingum til bóta og það á að leggja upp með að öll börn og unglingar njóti virðingar óháð, kyni, kynhneigð eða uppruna. Börn eiga að lifa við frelsi frá ofbeldi, rasisma, stéttaskiptingu og kvenfyrirlitningu. Aukinn stuðning þarf meðal annars í skólum og fullnægjandi mönnun, bættan aðbúnað og skýrar aðgerðir, tæki, tól og svigrúm til að tryggja slíkt frelsi.
Við viljum líka vinna markvisst gegn fátækt barna. Bætum hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram að styrkja barnabótakerfið, með áherslu á einstæða foreldra. Við viljum líka útrýma biðlistum í þjónustu við börn þar sem hvorki efnahagur né búseta mega vera hindranir. Styrkja þarf verulega meðferðarúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.
Hvað teljið þið mikilvægt að gera til að efla gott tómstundastarf á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni á landsvísu?
Það þarf efla allt tómstundastarf. Það þarf að tyggja fjárhagslegan grundvöll fyrir allt tómstundastarf svo ekki þurfi að keppast um fjármagn sem hefur því miður oft verið raunin. Það þarf að tryggja fjölbreytileika og samstarfs milli mismunandi tómstunda svo börnum og þá sérstaklega unglingar geti tekið út þann félagslega þroska sem öll þurfa í öruggu umhverfi. Það þarf sérstaklega að huga að minni samfélögum og minnihluta hópum. Það að alast upp í dreifbýli á ekki að koma í veg fyrir félagslegan þroska. Breyting á æskulýðslögum er mikilvægur þáttur í þessu og það þarf að passa að lögin stuðli ætíð að því að tómstundir og æskulýðsstarf sé í tengingu við notenda hópinn. Það gerum við meðal annars með því að tryggja undirstöðu ungmennaráða og ungmennalýðræðis.
Píratar:
Svarið er samið af einum yngsta Píratanum en hann er 17 ára 🙂
Styðjið þið ný æskulýðslög og munið þið beita ykkur fyrir því að lögfesta félagsmiðstöðvar og ungmennahús?
Já við styðjum ný æskulýðslög. Við teljum mikilvægt að lögfesta félagsmiðstöðvar og ungmennahús til að tryggja það að börn og ungmenni hafi alltaf einhvern stað til að leita á og jafnan rétt að aðgengi.
Hvernig ætlið þið að reyna draga úr ofbeldishegðun unglinga og barna og tryggja öryggi allra barna á Íslandi (hinsegin, af erlendu baki brotni)?
Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að börn og unglingar hafi greiðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu og annari velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Við munum beita okkur fyrir því að skoða, fjölga ef þarf og efla þau úrræði sem nú eru til staðar. Það að börn séu í marga mánuði eða ár á biðlistum eftir þjónustu er óásættanlegt að okkar mati og ekki í samræmi við það velferðarsamfélag sem við viljum búa börnunum okkar. Í öðru lagi teljum við æskilegt að þjónusta sé nær börnum t.d með því að hafa stöðugildi sálfræðinga og félagsráðgjafa innan skólanna sem gerir það mögulegt að greina og bregðast við áskorunum á meira viðeigandi máta.. Í þriðja lagi er stefna okkar að koma geðrækt inn í aðalnámskrá skólanna. Það að kenna geðrækt í skólum myndi vera liður í því að byggja upp einstaklinga með meiri seiglu, betri sjálfsmynd, fleiri tól sem nýtast við tilfinningastjórn o.fl..
Hvað teljið þið mikilvægt að gera til að efla gott tómstundastarf á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni á landsvísu?
Öll börn eiga að hafa aðgengi að fjölbreyttu tómstundastarfi. Það hefur sýnt sig að þátttaka barna í tómstundum hefur mjög mikilvægt forvarnargildi. Börn sem að eru í tómstundum eru ólíklegri en önnur börn til að leita í áfengi og önnur vímuefni. Tómstundastarf hefur oft góð og jákvæð áhrif a sjálfsmynd okkar allra, einnig barna. Því er mikilvægt að öll börn hafi aðgang að fjölbreyttum tómstundum í heimabyggð og á viðráðanlegu veðri fyrir foreldra. Skoða mætti frekari tómstundastyrki og aðkomu t.d skóla við það að aðstoða börn við að komast í tómstundir við hæfi .
Samfylkingin:
Styðjið þið ný æskulýðslög og munið þið beita ykkur fyrir því að lögfesta félagsmiðstöðvar og ungmennahús?
Já, við styðjum ný æskulýðslög og að starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa verði lögfest og að lögin verði útfærð með þeim hætti að þau tryggi starfið og styðji við framþróun og fagmennsku. Það er búið að vinna gríðarlega mikla vinnu af hálfu ungs fólks, félagasamtaka og starfsfólks í æskulýðsstarfi við að móta stefnu og undirbúa ný æskulýðslög og nauðsynlegt að stjórnvöld klári þá vinnu í samráði við vettvanginn. Ekki fleiri loforð eða stýrihópa, nú er komið að aðgerðum.
Hvernig ætlið þið að reyna að draga úr ofbeldishegðun unglinga og barna og tryggja öryggi allra barna á Íslandi (hinsegin, af erlendu bergi brotin)?
Fjárhagsleg og félagsleg staða fólks er undirstaða farsældar og öryggis. Langtímamarkmiðið þarf því að vera að skapa samfélag jöfnuðar og að fátækt barna sé útrýmt. Til skamms tíma þurfum við að taka markviss skref til að styðja við allt unga fólkið okkar í skólakerfinu og íþrótta- og frístundastarf og tryggja að kerfin tali saman. Börn þurfa að hafa aðgang að sálfræðiþjónustu, greiningarferli og meðferðarúrræðum án þess að þurfa að bíða mánuðum eða árum saman.
Við þurfum að efla samfélagslögregluna og vettvangsstarf félagsmiðstöðva en einnig að auka opnunartíma félagsmiðstöðva og ungmennahúsa svo að unglingar og ungmenni hafi alltaf öruggan stað til að vera á og taka þátt í verkefnum sem þau hafa áhuga á og gefa þeim tilgang. Allt þetta þarf að vera hluti af nýrri ungmennastefnu Íslands sem við viljum vinna í samráði við ungt fólk og þau sem vinna með ungu fólki á næsta kjörtímabili.
Hvað teljið þið mikilvægt að gera til að efla gott tómstundastarf á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni á landsvísu?
Á Íslandi er unnið gríðarlega öflugt tómstundastarf en unga fólkið okkar kallar eftir meiri opnunartíma og auknum tækifærum fyrir ungt fólk til þátttöku. Það er lykilatriði að tryggja aðgengi ungs fólks í auknum mæli að því fagstarfi sem nú þegar fer fram. Þegar rætt er við ungt fólk í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum kemur skýrt fram að starfsfólkið er mikilvægasti þáttur starfsins og svo kemur aðstaðan. Það er því mikilvægt að halda áfram að efla tómstunda- og félagsmálafræðina í Háskóla Íslands og bjóða upp á markvissa og öfluga fræðslu fyrir allt starfsfólk í tómstundastarfi til þess að styðja við það og styrkja beint í starfi með börnum og ungmennum.
Mikilvægt er að efla sjóði þar sem ungt fólk getur sótt um fjármagn í verkefni en einnig að tryggja að starfsemi félagasamtaka sem vinna á vettvangi frístundastarfs sé tryggt fjármagn í rekstur.