Vettvangsferð Samfés til Gdańsk í Póllandi
Dagana 10. – 14. desember fór hópur frá Samfés í vettvangsferð til Gdańsk í Póllandi. Ferðin var fjölbreytt og fræðandi, þar sem við fengum einstakt tækifæri til að kynnast því öfluga starfi sem unnið er með ungmennum í borginni.
Youth Council of Gdańsk
Fyrsta heimsóknin var til Youth Council of Gdańsk. Við fengum að sitja inn á fundi ráðsins og fylgjast með æsispennandi – og dramatískum – kosningum sem fram fóru á fundinum. Það var einstaklega áhugavert að sjá hvernig ungmennaráðið starfar og hvernig þau leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á nærsamfélagið sitt.
Klub Młodzieżowy
Næst heimsóttum við Klub Młodzieżowy, sem eru frjáls félagasamtök. Það sem byrjaði sem sjálfboðaliðaverkefni endaði óvart sem það sem við á Íslandi köllum félagsmiðstöð. Starfsemi þeirra var mjög áhugaverð, en þau höfðu m.a. komið sér upp félagsmiðstöð inni í verslunarmiðstöð. Annað sem sem okkur fannst áhugavert var að þau voru bara búin að vera starfsandi síðan 2019. Þetta var óhefðbundin en einstaklega skemmtileg nálgun sem skapaði gott aðgengi fyrir ungmenni og gaf þeim tækifæri til að njóta samveru í öruggu og skapandi umhverfi.
ECSC – European Solidarity Centre
Síðast en ekki síst hittum við samtök sem starfa í húsnæði European Solidarity Centre (ECSC). ECSC er lifandi minnismerki um mikilvægi samstöðu og lýðræðisbaráttu í Evrópu og var einstakt að hitta samtök sem vinna með ungmennum í þessu sögufræga og áhrifaríka umhverfi.
Vettvangsferðin til Gdańsk var mikilvægur lærdomur fyrir okkur hjá Samfés og opnaði nýjar sýnir á fjölbreyttar leiðir í æskulýðsstarfi. Það var ómetanlegt að sjá hvernig ólík verkefni eru unnin í Póllandi og hvaða nálganir hafa reynst vel í starfi með ungmennum. Við komum heim með nýjar hugmyndir og innblástur sem nýtast munu í starfinu hér heima á Íslandi.