Stíll 2025 – Samstarf skóla og félagsmiðstöðva gerir Stíl einstakan

}

4.3.2025

Stíll 2025

Garðalundur sigraði Stíl hönnunarkeppni Samfés 2025 🏆

Félagsmiðstöðin Garðalundur fór með sigur af hólmi í hönnunarkeppninni Stíll, sem Samfés stendur árlega fyrir. Keppnin hefur verið haldin frá árinu 2000 í samstarfi við félagsmiðstöðvar í Kópavogi, eða Félkó, og er einstök á Íslandi.

Í ár tóku yfir 30 lið alls staðar að af landinu þátt í keppninni og skiluðu inn glæsilegum vinnumöppum 📁 þar sem þau gerðu grein fyrir hugmyndavinnu sinni og sköpunarferli. Þema keppninnar í ár var „Sjóræningjar Karabískahafsins“ 🏴‍☠️ og keppendur sýndu ótrúlegan frumleika í hönnun, förðun og hárgreiðslu.

Samstarf skóla og félagsmiðstöðva gerir Stíl einstakan 🎨

Það sem gerir Stíl að svo einstökum viðburði er það nána samstarf sem víða hefur myndast milli félagsmiðstöðva og grunnskóla. Margir grunnskólar bjóða upp á valáfanga þar sem nemendur vinna að hönnun og öðru tengdu keppninni í samvinnu við félagsmiðstöðina. Þetta samstarf gefur ungmennum dýrmæt tækifæri til að þróa hæfileika sína og vinna saman í skapandi umhverfi ✨.

Keppnin var sannkölluð hátíð fyrir skapandi ungt fólk, þar sem mikil gleði ríkti meðal þátttakenda og áhorfenda. Að sýningu lokinni stigu ungu listamennirnir Þrívídd á svið og skemmtu gestum með tónlist 🎶, og í framhaldi sá ungmennaráð Samfés um að halda stuðinu uppi þar til dómarar höfðu ráðið ráðum sínum.

Hönnunarkeppnin Stíll er mikilvægur vettvangur fyrir ungt fólk til að tjá sig og þróa hæfileika sína á skapandi sviðum. Samfés heldur áfram að leggja metnað í að skapa tækifæri fyrir ungt fólk til að láta rödd sína heyrast og styrkja sjálfsmynd sína í gegnum listsköpun.

Sigurvegarar Stíls 2025 🏅:

🥇 1. sæti: Garðalundur
🥈 2. sæti: Frosti
🥉 3. sæti: Mosinn

Auk þess hlutu eftirfarandi félagsmiðstöðvar sérstök verðlaun:
💇‍♀️ Hárgreiðsla: Tjarnó
💄 Förðun: Selið B
📜 Hönnunarmappa: Selið C