Félagsmiðstöðva og ungmennahúsavikan 2025

Þann 15. október var félagsmiðstöðvadagurinn haldinn hátíðlegur í félagsmiðstöðinni Þróttheimum í Reykjavík fyrir öll börn sem félagsmiðstöðin þjónustar og fjölskyldur þeirra. Dagurinn hófst á opnun kl. 17:00 fyrir börn á miðstigi og fjölskyldur þeirra en mæting var mjög góð á viðburðinn. Boðið var upp á léttar veitingar og skemmtilega dagskrá.

Þar sem þema dagsins í ár var „Afmælisveisla“ í tilefni 40 ára afmælis Samfés var farið í pakkaleiki, limbó og stoppdans en þátttaka í leikjum var mjög góð og öll skemmtu sér konunglega.

Um kvöldið tók félagsmiðstöðin svo á móti börnum á unglingastigi og fjölskyldum þeirra en dagskrá þeirra hófst kl. 19:30. Þá var enn á ný farið í pakkaleiki og að lokum tóku öll þátt í spurningakeppni í afmælisþema. Þátttaka í þeim viðburði var sérstaklega góð af hálfu bæði barna og foreldra. Félagsmiðstöðvadeginum í Þróttheimum lauk svo kl. 21:45 og öll fóru kát heim eftir frábæran dag.

 

Í október hélt félagsmiðstöðin Verið í Hafnarfirði upp á Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikuna með fjölbreyttri og líflegri dagskrá. Markmiðið var að gera starfið sýnilegra, virkja unglingana og skapa tækifæri til samveru og tengslamyndunar.

Vikan hófst á TikTok-kvöldi þar sem áherslan var á að sýna starfið út á við með skapandi hætti. Unglingarnir hafa nýtt sér TikTok undir leiðsögn starfsfólks til að kynna viðburði, peppa fyrir böll og sýna gleðina sem einkennir starfið í Verinu. Þetta kvöld var bæði fræðandi og skemmtilegt og sýndi vel hvernig ungt fólk getur nýtt samfélagsmiðla á jákvæðan hátt.

Á miðvikudeginum var haldið vöffluboð þar sem foreldrum og öðrum gestum var boðið að líta við. Unglingarnir sáu sjálfir um vöfflubaksturinn, og þó nokkuð af foreldrum komu og tóku þátt í starfseminni sem var virkilega skemmtilegt. Þessi vika er fullkominn vettvangur til þess.

Vikan endaði á “Besti vinur Versins”, léttum og fyndnum spurningaleik þar sem spurt var út í allt frá starfsemi félagsmiðstöðvarinnar, starfsfólkið og Samfés, til spurninga á borð við „hvað þarf marga af tilteknum starfsmanni til að komast til tunglsins?“ sem létt grín.

Vikan tókst einstaklega vel, mætingin var góð og andinn jákvæður. Hún undirstrikaði mikilvægi sýnileika, virkrar þátttöku og samvinnu, sem eru lykilgildi í starfi Versins.

 

Félagsmiðstöðin Zero á Flúðum tók þátt í félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikunni með óhefðbundnum hætti í ár. Í stað hefðbundinna viðburða kynnti Zero starf sitt á Íþrótta- og tómstundahlaðborði Uppsveita, sem haldið var í íþróttahúsinu á Laugarvatni. 

Þar gafst foreldrum, börnum og íbúum uppsveitanna tækifæri til að fræðast um þá þjónustu og afþreyingu sem stendur ungmennum til boða á svæðinu.

Með þátttökunni lagði Zero áherslu á mikilvægi félagsmiðstöðvarstarfs sem öruggs og uppbyggjandi vettvangs fyrir ungmenni. Viðburður sem þessi tengir saman heimili, tómstundir og annað frístundastarf sem stendur börnum til boða.

Í dreifðari byggðum, þar sem fjarlægðir eru miklar og þjónusta dreifð, gegna félagsmiðstöðvar lykilhlutverki. Þær verða oft miðpunktur félagslífs og samskipta, öruggur vettvangur þar sem unglingar geta verið þeir sjálfir. Þar skapast jafnframt tækifæri til jafnræðis, óháð búsetu sem skiptir miklu fyrir líðan ungs fólks á landsbyggðinni.

Zero tók því virkan þátt – með því að vera sýnileg og hluti af samfélagi sem stuðlar að auknu sjálfstrausti ungs fólks, eflir tengsl og virkjar öll til þátttöku.

 

Félagsmiðstöðin Afdrep opnaði með pomp og prakt eftir miklar breytingar

Félagsmiðstöðin Afdrep opnaði dyr sínar á ný í haust eftir miklar breytingar og stækkun á húsnæðinu. Í tilefni þess var haldin glæsileg opnunarhátíð og degi félagsmiðstöðvarnar fagnað, þar sem öllum bæjarbúum í Snæfellsbæ var boðið að koma og fagna með starfsfólki, börnum og ungmennum.

Mæting var frábær og ríkti mikil gleði og góð stemning í húsinu. Boðið var upp á veitingar og fengu gestir að skoða nýju og endurbættu aðstöðuna.

Börn og ungmenni Snæfellsbæjar eru mjög ánægð með breytingarnar og hafa verið dugleg að sækja félagsmiðstöðina eftir opnunina. Afdrep býður nú upp á enn betri aðstöðu til samveru, skapandi verkefna og frístundastarfs.

Framtíðin er björt í Snæfellsbæ og Afdrep heldur áfram að vera hjarta ungs fólks í bænum.