Í 35. sinn var Landsmót Samfés haldið, helgina 3.-5. október – og það á sama stað og fyrsta Landsmótið fór fram: á Blönduósi.
Um 400 ungmenni komu saman ásamt um 100 starfsfólki og skapaðist ótrúlega skemmtileg og kraftmikil stemning alla helgina.
Á föstudeginum hófst mótið með frábærri kvöldvöku sem Ungmennaráð Samfés skipulagði af mikilli snilld. Þar fór einnig fram kosning í nýtt Ungmennaráð Samfés og óskum við þeim sem hlutu kjör innilega til hamingju með kjörið.
Laugardagurinn var helgaður fjölbreyttum smiðjum þar sem öll gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Ungmennin fengu meðal annars að prófa þrekpróf hjá Lögreglunni, taka þátt í blaki, ratleik, blindrasmakki og kajaksiglingu og vísindasmiðju á Skagaströnd . Einnig var boðið upp á umræðusmiðjur um samkennd, tabú og Erasmus+ og klípusögur og margt fleira.
Á laugardagskvöldinu fór svo fram fjörugt ball þar sem ungmenna plötusnúðar stigu á svið og héldu uppi stemningunni. Hinrik úr Kjarnanum, Eyþór úr Fókus og Sverrir og Fjóla úr Öldunni spiluðu fyrir fullan sal af dansandi ungmennum. Nussun og Húgó mættu óvænt og tóku nokkur lög, sem setti punktinn yfir i-ið á frábæru kvöldi.
Á sunnudeginum var haldið Landsþing ungs fólks þar sem ungmennin ræddu saman um málefni sem þeim liggja á hjarta. Þau hlýddu jafnframt á örfyrirlestur um Samskiptasáttmála, nýtt verkefni Ungmennaráðs Samfés, og tóku þátt í föndri þar sem þau gerðu vinaarmbönd og bættu kærleiksríkum orðum á kærleikstré.
Þema Landsmótsins í ár var Kærleikur og má með sanni segja að kærleikurinn hafi verið leiðarljós helgarinnar, bæði í verkefnum og í samskiptum þátttakenda.
Samfés vill þakka öllum sem lögðu sitt af mörkum til að gera Landsmót Samfés 2025 að eftirminnilegri helgi, bæði starfsfólki og ungmennum.
Samfés vill senda sérstakir þakkir til staðarhaldara fyrir að taka á móti okkur og frábært samstarf.
Takk fyrir komuna á Blönduós!