Norrænn leiðtogafundur barna og ungmenna 2023
Aðgerðaáætlun samþykkt einróma.
Það var mikill kraftur og spenna í Norðurljósasal í Hörpu um helgina þegar að um 170 börn og ungmenni frá Norðurlöndunum komu saman á Norrænum leiðtogafundi barna og ungmenna. Norræni leiðtogafundurinn er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni í ár. Í aðdraganda að viðburðinum var ljóst í samtali og á samstarfsfundum barna og ungmenna að þau eru orðin þreytt á því að vera sífellt spurð um hvað þeim finnst, nú væri kominn tími á aðkallandi aðgerðir. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra setti viðburðinn og ræddi meðal annars um mikilvægi virkrar þátttöku og samtals barna og ungmenna á Norðurlöndunum.
Líflegar og góðar umræður áttu sér stað milli allra þátttakenda á föstudeginum og fór laugardagurinn í að draga saman umræðurnar og mynda úr þeim aðgerðir sem afhentar voru Guðmundi Inga Guðbrandssyni, samstarfsráðherra Íslands í Norrænu Ráðherranefndinni. Lagðar voru fram margar mikilvægar aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðamenn kynni sér og taki mið af þegar ákvarðanir eru teknar í málefnum sem snerta börn og ungmenni.
Guðni Th Jóhannesson leit við og hvatti þátttakendur og minnti á mikilvægi þess að börn og ungmenni láti rödd sína heyrast. Þátttakendur á leiðtogafundinum lögðu mikla áherslu á mikilvægi umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar. Þau krefjast aukinnar fjárfestingar í menntun, lengri opnunartíma í félagsmiðstöðvum, að jafnt aðgengi er að námi og öflugri almenningssamgöngur, sem allt eru lykilatriði í baráttunni fyrir betri og sjálfbærari heimi.
Það var aðdáunarvert að fylgjast með málefnalegum og góðum umræðum í þessum stóra og fjölbreytta hópi barna og ungmenna. Tillögur þeirra og aðgerðaáætlun sem er skýr var samþykkt einróma af fundagestum í lok fundarins. Á Norræna leiðtogafundinum kom skýrt í ljós að unga fólkið er ekki bara framtíðin heldur einnig nútíðin. Þau tala ekki einungis fyrir sig sjálf heldur einnig fyrir komandi kynslóðir.
Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi samtal og efla enn frekar norrænt samstarf með það að markmiði að Norðurlöndin verði besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni.