Starfsdagar Ungdom og fritid í noregi

}

20.12.2024

Vettvangsferð Samfés til Noregs

Í nóvember fóru fulltrúar Samfés í vettvangsferð til Noregs þar sem þeir tóku þátt í Starfsdögum Ungdom og Fritid, systursamtaka Samfés í Noregi. Ferðin var bæði fræðandi og innblásin, þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að kynna sér nýjungar og þróun í frístundastarfi í Noregi.

Fulltrúar Samfés í ferðinni voru Valgeir formaður Samfés, Linda, Sigmar og Elín Lára úr stjórn Samfés og Svava og Sonja frá starfsmannateymi Samfés. Á starfsdögunum var kynnt margt spennandi sem er í gangi hjá Ungdom og Fritid. Meðal annars hlaut samtökin nýverið styrk að upphæð 2,7 milljónir NOK (norskar krónur) frá Gjensidigestiftelsen. Styrkurinn styður áframhaldandi þróun frístundastarfs í Noregi, sem hægt er að lesa nánar um hér.
Annað stórt skref sem var kynnt á ráðstefnunni er að Háskólinn í Ósló mun hefja kennslu í nýrri BA-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði. Þetta er mikilvægt fyrir faglega þróun og viðurkenningu á frístundastarfi á háskólastigi. Frekari upplýsingar um þetta má finna hér.

 Auk þátttöku í starfsdögunum heimsótti hópurinn fimm félagsmiðstöðvar og frístundaheimili í Noregi. Heimsóknirnar gáfu dýrmæt innsýn í starfsemi þeirra og hvernig Norðmenn vinna að því að skapa öruggt og skapandi umhverfi fyrir börn og ungmenni. Við fengum tækifæri til að ræða við starfsfólk, sjá nýjungar í starfi og deila reynslu okkar úr íslensku frístundastarfi.

 

Samstarf í Nordic Network
Samfés hefur einnig verið virkur þátttakandi í vinnuhópum með systursamtökum okkar á Norðurlöndunum sem saman mynda Nordic Network. Vinnuhóparnir eru mikilvægur vettvangur fyrir samtal, reynsluskipti og samstarf um hvernig best sé að styðja við frístundastarf og lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna. Með því að deila þekkingu og læra af öðrum Norðurlandaþjóðum getum við unnið að sameiginlegum lausnum og styrkt stöðu frístundastarfs á svæðinu.

Í tengslum við samstarfið fengum við einnig góða kynningu á POYWE (Professional Open Youth Work in Europe), sem eru samtök sem vinna að því að efla faglegt æskulýðsstarf í Evrópu. Kynningin var bæði fræðandi og gagnleg, þar sem við fengum innsýn í hvernig POYWE styður við fagmennsku og þróun í opnu æskulýðsstarfi á alþjóðlegum vettvangi.