Þingmenn leiruðu fyrir málefnum barna
Þingmenn léku á alls oddi og leiruðu saman fígúrur sem minna þá á að tala fyrir málefnum og hagsmunum barna á Alþingi.
„Neyðarástand ríkir í málaflokki barna með fjölþættan vanda. Þessi málaflokkur er gríðarlega mikilvægur og ég hlakka til að fá að vinna að því að bæta aðstæður barnanna,“ segir Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar. Hann er í hópi tíu þingmanna allra flokka á Alþingi, sem skrifuðu undir yfirlýsingu í dag sem fól í sér skuldbindingu um að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í störfum sínum á þinginu og leitast við að tileinka sér barnvæn sjónarmið.
Þetta var í sjöunda skiptið sem talsmenn barna á Alþingi eru skipaðir og er verkefnið samstarf Barnaréttindavaktarinnar. Að Barnaréttindavaktinni standa níu félagasamtök sem láta sig réttindi og velferð barna varða. Það eru Barnaheill, Heimili og skóli, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn, Samfés, UMFÍ, UNICEF á Íslandi, Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtök.
Öll börn eigi að búa við frið
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, setti viðburðinn í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis og tók þátt í því að leira með þingmönnunum fígúru og ræða um málefni barna frá ýmsum sjónarhornum. Hver þingmaður tók fígúruna með sér til að setja inn á skrifstofu sína til áminningar um hlutverkið sem hann tekur nú að sér og sinnir út kjörtímabilið. Þar er átt við öll börn í alls konar aðstæðum sem mörg eiga sér ekki málsvara en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna nær til allra barna óháð uppruna og lagalegri stöðu þeirra, börn sem af mýmörgum ástæðum standa á jaðri samfélagsins, börn sem búa við fátækt, af erlendum uppruna og börn með fötlun.
Þórunn sagði sína fígúru talskerlingu, sem muni minna hana á að öll börn eigi að búa við frið.
Valgeir Þór Jakobsson, formaður Samfés, hélt líka stutt ávarp og sagði m.a. þau sem standa að Barnaréttindavaktinni leggja áherslu á mikilvægi þess að tala máli allra barna. Það feli í sér að tryggja að hlustað verði á hverja einustu rödd.
„Við berum öll ábyrgð á að skapa samfélag þar sem börn, óháð bakgrunni, upplifi vellíðan og öryggi í landinu. Þar leika ráðamenn lykilhlutverk,“ sagði hann.
Eftir að þingmennirnir höfðu lokið við að leira fígúrur sem tala fyrir málefnum barna, völdu þau sér eina grein úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hafði verið raðað upp á spjöld í fundarherberginu og stilltu sér upp fyrir myndatöku.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi í febrúar árið 2013. Þar sem engin þingnefnd á Alþingi hefur enn haft það hlutverk að fjalla heildstætt um málefni barna var óskað eftir samstarfi við þingflokka og stofna þingmannahóp um talsmenn barna á Alþingi. Árið 2014 skrifuðu þingmenn í fyrsta sinn undir yfirlýsingu og tóku að sér að huga sérstaklega að réttindum, hagsmunum og sjónarmiðum barna í störfum sínum.
Eftirfarandi þingmenn tóku þátt í viðburðinum:
Jón Pétur Zimsen og Bryndís Haraldsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gnarr og María Rut Kristinsdóttir, þingmenn Viðreisnar, Guðmundur Ingi Kristinsson og Kolbrún Baldursdóttir frá Flokki fólksins, Ingibjörg Davíðsdóttir og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir frá Miðflokknum, Arna Lára Jónsdóttir frá Samfylkingunni og Halla Hrund Logadóttir frá Framsóknarflokki.