Um Samfés
Samfés, Landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru í desember 1985 og starfa í þágu ungs fólks um land allt.
Samfés vinnur að því að auka samskipti og samvinnu félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á landinu og stuðla að eflingu fagmenntunar starfsfólks á vettvangi með ráðstefnum, námskeiðum og viðburðum sem eru mikilvægur hluti símenntunar starfsfólks. Hlutverk samtakanna er einnig að koma á framfæri upplýsingum um starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa og undirstrika mikilvægi þeirra í forvarnarstarfi og félagslegri mótun ungs fólks. Í starfi Samfés er lögð mikil áhersla á því að ungt fólk hafi tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og að rödd þeirra berist ráðamönnum. Með því að efla samstarf, samtal og halda úti lýðræðislega kjörnu ungmennaráði Samfés og ungmennaráði SamfésPlús, veitum við ungu fólki tækifæri til að hafa áhrif á umræðu, hugmyndir og löggjöf um æskulýðsmál á Íslandi og aukum þannig félags- og lýðræðislega þátttöku ungs fólks á Íslandi.
Samfés styður einnig við allt það öfluga forvarnarstarf sem fer fram í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum landsins með því að bjóða upp á jafningjafræðslu og halda viðburði fyrir ungmenni á aldrinum 10-25 ára. Með skipulagningu fjölbreyttra árlegra viðburða og verkefna fyrir starfsfólk og ungmenni á landsvísu viljum við leggja áherslu á að ná til fjölbreytts hóps ungmenna sem hafa tækifæri til að taka þátt á eigin forsendum, þeim að kostnaðarlausu.
Þá hefur Samfés það mikilvæga hlutverk að starfa sem ráðgefandi aðili fyrir alla 125 aðildarfélaga okkar, bjóða upp á fræðslur og fundi til að tengja saman fólk af vettvangi frítímans. Einnig efnir Samfés til og tekur þátt í fjölbreyttum samstarfsverkefnum á innlendum og erlendum vettvangi sem tengjast forvörnum, æskulýðsstarfi, menntun og málefnum sem tengjast ungu fólki.
Hérna er hægt að sjá samantekt úr sögu Samfés frá 1985-2015.
Markmið Samfés
Samvinna, lýðræði og virk þátttaka ungs fólks
Auka samvinnu og samskipti aðildarfélaga samtakanna.
Halda úti og styðja við öflugt fulltrúaráð 16+ sem og lýðræðislega kjörnu ungmennaráði Samfés.
Stuðla að virkri félags- og lýðræðisþátttöku ungs fólks á landsvísu.
Þekking, fagmennska og fræðsla
Stuðla að eflingu fagmenntunar starfsfólks á vettvangi.
Stuðla að framboði fræðsluefnis er varða málefni ungs fólks.
Alþjóðlegt samstarf og sýnileiki
Efna til og taka þátt í verkefnum á alþjóðlegum vettvangi.
Auka sýnileika samtakanna og starfi aðildarfélagana.
Leggja áherslu á samstarf sem tryggir aðkomu samtakanna og hagsmunaaðila að ákvarðanatöku og uppbyggingu á málefnum ungs fólks á landsvísu.
Félagsmiðstöðvar og ungmennahús
Félagsmiðstöð, eins og við þekkjum hana í dag, er afdrep þar sem unglingar á aldrinum 10-16 ára geta varið frítíma sínum án áfengis og vímuefna. Hlutverk félagsmiðstöðva er að stuðla að jákvæðum þroska unglinga og gera þau sjálfstæðari, bæði í verki og félagslegum samskiptum og gera þau hæfari til að takast á við lífið. Í starfi félagsmiðstöðva er lögð áhersla á gildi forvarna, sköpunar og mismunandi tegunda náms. Starfsmenn félagsmiðstöðva tryggja að starfið sé faglegt og taki mið af uppeldisgildum frítímans.
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna (1989) þarf að virða rétt allra barna 18 ára og yngri til tómstunda. Mikilvægt er að öllum sé veitt jöfn tækifæri til þátttöku í menningarlífi, listum og tómstundaiðju (Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, 1989).
Félagsmiðstöðvar á Íslandi þjóna þessum tilgangi til 16 ára aldurs. Ungmennahús koma að vissu leyti í stað félagsmiðstöðva eftir 16 ára aldur. Þær eru opnar öllum ungmennum á aldrinum 16 – 25 ára. Ungmennahús er hugsað sem staður fyrir þá sem ekki stunda skipulagðar tómstundir. Þar geta ungmenni komið og fengið að finna sig á sínum eigin forsendum í umhverfi sem leggur ekki á þau fyrirfram mótaðar kröfur.
Ungmennahús eru sérstaklega hugsuð sem staður þar sem annarsvegar er verið að bjóða ungmennum upp á tómstundir sem hafa forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Hins vegar er hlutverk þeirra að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytileikann og að allir upplifi sig velkomna.