Um Ungmennaráð Samfés
Eitt af mikilvægustu verkefnum Samfés er að halda úti og styðja við tvö öflug ungmennaráð samtakanna. Ráðin eru aldursskipt, fulltrúar Ungmennaráðs Samfés eru á aldrinum 13-16 ára og fulltrúar Ungmennaráðs ungmennahúsa Samfés eru á aldrinum 16-25 ára.
Ungmennaráð Samfés tók til starfa á Landsmóti Samfés 2006, eftir að tillaga um stofnun þess var samþykkt á aðalfundi fyrr á sama ári.
Kosningar í Ungmennaráð Samfés fara árlega fram á Landsmóti Samfés. Alls er kosið í 9 kjördæmum, þar sem 18 fulltrúar eru kosnir til tveggja ára og 9 fulltrúar til eins árs. Þannig eru fulltrúar ráðsins 27 talsins. Mikilvægt er að félagsmiðstöðvar upplýsi og hvetji unga fólkið tímanlega til að bjóða sig fram. Hver félagsmiðstöð má senda inn eitt framboð (fyrir sitt kjördæmi).
Starfsmenn Ungmennaráðs Samfés eru Agla og Elías
Ungmennaráð Samfés
- Ungmennaráðið fundar um 10-14 sinnum á ári, ýmist á skrifstofu Samfés eða með rafrænu formi.
- Allur ferða- og fundarkostnaður fulltrúa ungmennaráða er greiddur af Samfés.
- Ungmennaráðin hafa tvo fulltrúa með fullan atkvæðisrétt á stjórnarfundum Samfés ásamt því að senda tvo fulltrúa á Aðalfund Samfés.
- Ungmennaráðið tekur virkan þátt í verkefnum, viðburðum og ákvarðanatöku í málefnum samtakanna.
- Fulltrúar ungmennaráðsins taka þátt í vinnu- og starfshópum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, taka þátt í og sitja á ráðstefnur og fundi um málefni tengd ungmennum og æskulýðsmálum hér á landi og erlendis.
Tilgangur og markmið Ungmennaráðs Samfés er að:
- Efla þátttöku ungmenna í starfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa.
- Tryggja virka þátttöku ungmenna í málefnum þeirra.
- Auka jafningjafræðslu.
- Tryggja að ungmenni öðlist rödd í samfélaginu.
- Ungmenni hafi tengiliði á landsvísu til þess að ræða málefni sem snúa að þeirra aldurshópi.
- Efla Evrópusamstarf við önnur ungmenni.
- Hafa áhrif á og vinna að viðburðum á vegum Samfés.
- Hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun.