Landsmót Samfés er árlegur viðburður sem haldinn er að hausti og hefur verið fastur liður í starfi Samfés frá árinu 1990, þegar mótið var haldið í fyrsta sinn á Blönduósi. Þar koma saman ungmenni alls staðar af landinu til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá sem sameinar fræðslu, umræðu, samveru og skemmtun. Mótið er einn af stærstu ungmennaviðburðum landsins og leggur áherslu á lýðræði, virðingu, samkennd og virka þátttöku ungs fólks í samfélaginu.
Föstudagur
Þátttakendur mæta á svæðið, skrá sig og koma sér fyrir í gistingu. Að kvöldi dags fer fram setningarathöfn þar sem mótið er formlega opnað og þátttakendur fá kynningu á dagskrá helgarinnar.
Í kjölfarið fer fram kosning í Ungmennaráð Samfés, stærsta lýðræðislega kjörna ungmennaráð landsins. Þar kjósa fulltrúar frá félagsmiðstöðvum um allt land fulltrúa í ráð sem starfar fyrir hönd ungs fólks á landsvísu allt næsta starfsár.
Kvöldið endar á sameiginlegri kvöldvöku þar sem lögð er áhersla á jákvæð samskipti, hópefli og að skapa öruggt og uppbyggilegt andrúmsloft fyrir öll.
Laugardagur
Laugardagurinn er helgaður smiðjum og hópastarfi þar sem unnið er með fjölbreytt málefni tengd sjálfsmynd, samfélagsþátttöku og skapandi tjáningu.
Smiðjurnar eru bæði fræðandi og hvetjandi – markmiðið er að þátttakendur læri eitthvað nýtt, fái innblástur og geti miðlað áfram þeirri reynslu sem þeir öðlast.
Að kvöldi dags fer fram Landsmótsballið, þar sem öll ungmenni koma saman, fagna helginni og njóta samverunnar í öruggu og skemmtilegu umhverfi.
Sunnudagur
Sunnudagurinn er tileinkaður Landsþingi ungs fólks, sem Ungmennaráð Samfés undirbýr og stýrir. Þar fá ungmenni tækifæri til að ræða málefni sem þeim eru hugleikin, koma með hugmyndir og móta ályktanir um málefni sem snerta þeirra daglega líf og framtíð.
Þetta er hápunktur mótsins þar sem lýðræðisleg vinnubrögð og rödd ungs fólks fá að njóta sín.
Að loknu þinginu eru niðurstöður teknar saman af Ungmennaráði og sendar til ráðuneyta, sveitarfélaga, fjölmiðla og aðildarfélaga Samfés, svo rödd ungs fólks fái vægi og áhrif.
