Lítið mark tekið á börnum og ungmennum!

}

9.3.2022

Landsmót Samfés og Landsþing ungs fólks

Landsmót Samfés og Landsþing ungs fólks fór fram um síðustu helgi á Hvolsvelli þar sem um 370 unglingar á aldrinum 13-16 ára frá félagsmiðstöðvum víðsvegar að af landinu komu saman. Á dagskrá var meðal annars kjör í Ungmennaráð Samfés sem er eina lýðræðislega kjörna ungmennaráð landsins, fjölbreyttar valdeflandi umræðu- og afþreyingasmiðjur og Landsþing ungs fólks sem í ár var haldið undir formerkjunum „Hvað finnst okkur“ – Viðspyrnuaðgerðir ungs fólks.

Meðal þess sem kom fram á þinginu er að unga fólkið vill að hlustað sé á þeirra raddir, að virkt samtal eigi sér stað sem leiði til þess að farið verði í nauðsynlegar viðspyrnuaðgerðir strax. Þeim finnst að oft sé ekki tekið mark á börnum og ungmennum og lítið sé gert úr þeirra vandamálum og skoðunum.

Málefnin sem tekin voru fyrir á Landsþingi eru ákveðin og skipulögð af Ungmennaráði Samfés. Þar eru lýðræðisleg vinnubrögð og valdefling ungs fólks allsráðandi. Málefnin sem áhersla var lögð á í ár voru viðspyrnuaðgerðir eftir heimsfaraldur, geðheilbrigði, umhverfismál, kynheilbrigði, jafnrétti kynjanna, skólakerfið, kosningaaldur, stjórnmál ofl.

Markmiðið með Landsmóti Samfés sem fyrst var haldið á Blönduósi árið 1990 er að auka sýnileika á mikilvægi þátttöku barna og ungmenna og starfi ungmennaráða um allt land, hvetja unglinga til lýðræðislegrar þátttöku, skapa vettvang sem eykur samfélagslega virkni, hvetja þau til að taka afstöðu og segja sína skoðun á málefnum sem varða þau.

Dagskrá Landsmóts Samfés er þríþætt, kjörið er í ungmennaráð Samfés, unnið er í fjölbreyttum afþreyinga- og valdeflandi smiðjum og Landsþing ungs fólks.

Landsþing ungs fólks

Á Landsþinginu hefur ungt fólk af öllu landinu tækifæri til að koma sínum spurningum, hugmyndum, áskorunum og ábendingum er varða málefni ungs fólks á framfæri.

Með virkri lýðræðislegri og aukinni samfélagslegri þátttöku ungs fólks er verið að tryggja að rödd þeirra berist ráðamönnum. Auk þess er rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér sem best.

Lokadagur Landsmóts Samfés er helgaður Landsþingi ungs fólks. Það er Ungmennaráð Samfés sem hefur veg og vanda að því að skipuleggja þennan viðburð. Á Landsmóti fer einnig fram kosning í ungmennaráð Samfés. Alls er kosið í 9 kjördæmum, 18 fulltrúa til tveggja ára og 9 fulltrúa til eins árs þannig að fulltrúar ráðsins eru 27. Markmið landsmótsins er að fulltrúar félagsmiðstöðva landsins, þ.e. ungmennaráð eða aðrir unglingar sem félagsmiðstöðin kýs að senda fyrir sína hönd hafi vettvang til að mynda tengsl og fá nýjar hugmyndir sem hægt er að nýta í starfi félagsmiðstöðvanna.

Á Landsþinginu fær ungt fólk tækifæri til að tjá sig um hin ýmsu málefni þeim hugleikin(n/ið). Niðurstöður Landsþings Samfés verða teknar saman af fulltrúum ungmennaráða Samfés sem munu afhenda ríkisstjórn þær með áskorun um tafarlausar og afgerandi aðgerðir í málefnum barna og ungmenna.

Nánari upplýsingar veita Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri s. 897-5254 og Guðrún Svava Baldursdóttir, formaður Samfés s. 822-9699.