Samstarf

}

19.2.2023

SAMSTARF

Starfsemi Samfés sem landssamtök hefur þróast ört á síðustu árum með auknu starfi á vettvangi ungmennahúsa og félagsmiðstöðva ásamt fjölbreyttum samstarfsverkefnum á innlendum sem og á alþjóðlegum vettvangi tengdum ungu fólki og æskulýðsmálum. Samtökin eru m.a. aðildarfélagi að Evrópusamtökum félagsmiðstöðva (ECYC), Landssambandi ungmennafélaga (LUF) og taka virkan þátt í forvarnarstarfi Samanhópsins.

LANDSSAMBAND UNGMENNAFÉLAGA

Landssamband ungmennafélaga (LUF) áður Landssamband æskulýðsfélaga (LÆF) er regnhlífasamtök fyrir félagasamtök ungs fólks á Íslandi og þeim tilheyra 31 aðildarfélög. Aðildarfélög LUF eiga það sameiginlegt að vera lýðræðisleg, frjáls félagasamtök, sem starfa á landsvísu, stýrð af ungu fólki og starfa með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi. LUF er þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur, málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum, talar fyrir hagsmunum ungra Íslendinga á alþjóðavettvangi og hefur upplýsingaskyldu að gegna gangvart aðildarfélögunum sínum auk þess að þjónusta þau á margvíslegan hátt. Nánari upplýsingar á http://luf.is/

SAMANHÓPURINN

Eitt meginmarkmið SAMAN-hópsins er að birta auglýsingar sem eru hvetjandi fyrir foreldra og styðja við þá í uppeldishlutverkinu. Í starfi hópsins eru fastir liðir ár hvert, eins og áramótaátak og sumarátak hópsins, en jafnframt hefur hópurinn látið útbúa alls kyns efni til að fylgja eftir markmiðum hópsins. Nánari upplýsingar á http://samanhopurinn.is/

EVRÓPUSAMTÖK FÉLAGSMIÐSTÖÐVA

Heimasíða ECYC er www.ecyc.org.  Skammstöfunin ECYC stendur fyrir European Confederation of Youth Clubs og þýðir Evrópusamtök félagsmiðstöðva.  Samtökin voru stofnuð 1976 og verða því 40 ára árið 2016.  Samfés gerðist meðlimur strax árið 1987 eða tveimur árum eftir stofnun Samfés.  Árið 2017 markar því 30 ára afmæli Samfés í samtökunum.  Markmiðið með stofnun ECYC var að: Stuðla að samvinnu milli landsamtaka félagsmiðstöðva í Evrópu, auka alþjóðavitund ungs fólks, stuðla að og standa fyrir ungmennaskiptum, námskeiðum og ráðstefnum og hvetja ungt fólk til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. ECYC nýtur stuðning frá Evrópska Æskulýðssjóði Evrópuráðsins (Council of Europe) og Erasmus+ (Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins).

Innan ECYC eru meðlimirnir 19 samtök frá 18 löndum sem spanna Evrópu, frá Íslandi í norðri til Kýpur í suðri.  Má reikna með að yfir 1,2 milljónir ungmenna taki þátt í starfi félagamiðstöðvanna og verkefnum ECYC á ári hverju.  Öll þessi samtök eiga það sameiginlegt að vera landsamtök félagsmiðstöðva í viðkomandi landi. Helstu verkfæri ECYC til að vinna að markmiðum sínum eru námskeið og ráðstefnur fyrir ungt fólk, ungmennaskipti einstakra félagsmiðstöðva, starfsmannaskipti í félagsmiðstöðvum og samtökum.  Þróun æskulýðsstarfs t.d. í gegnum leiðtogaþjálfun, uppbygging nets milli meðlima um ákveðin málefni sem áhugi er á hverju sinni og stefnumótun í ákveðnum málaflokkum t.d. þátttöku í samfélaginu, æskulýðsstarf með stúlkum eða jafningjafræðsla. 

ECYC hefur haft það að einu aðalmarkmiði sínu undanfarin ár að kynna og stuðla að áframhaldandi þróun á opnu æskulýðsstarfi (open youth work).  Tilgangur opins æskulýðsstarfs er að gefa ungu fólki tækifæri á að þroskast í gegnum reynslu sem kennir þeim að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi sem og að þroska þá sem einstaklinga.