Rafíþróttamót sameinar ungt fólk á landsvísu

}

11.4.2022

Rafíþróttamóti Samfés

Á Rafíþróttamóti Samfés og Elko sem haldið var um helgina í Íþróttahúsinu Digranesi voru samtals 198 ungmenni á aldrinum 13-25 ára skráð til leiks á ört stækkandi viðburði öflugs samfélags ungs fólks sem hefur áhuga á rafíþróttum.

Þátttakendur á móti helgarinnar sem komu meðal annars frá Húsavík, Vestmannaeyjum, Hvolsvelli, Suðurnesjum, Þorlákshöfn og af höfuðborgarsvæðinu spiluðu og kepptu meðal annars í Fortnite, Valorant, FIFA, CS:GO, League of Legends, Rocket League og VR leikjunum Gorilla tag og Pavlov. Áhersla er lögð á að þátttakendur geti líka mætt,  haft gaman og spilað án þess að keppa á mótinu.

Markmiðið mótsins er meðal annars að ná til ungs fólks, virkja til þátttöku, draga úr félagslegri einangrun og stuðla að jákvæðri þróun í rafíþróttum. Starfsfólk mótsins og þátttakendur voru sammála því að mótið einkenndist af almennri gleði, hamingju og að ungt fólk hafi haft gaman af því að spila saman og kynnast.

Það er mjög ánægjuleg þróun að síðan Samfés byrjaði að halda rafíþróttaviðburði hefur einnig þátttaka ungs fólks á aldrinum 16-25 ára aukist með góðu samstarfi við ungmennahúsin og aðra aðildarfélaga Samfés. Unga fólkið er nú þegar farið að hlakka til næsta móts og munu þau líka geta tekið þátt á Norræna rafíþróttamótinu Nordic E-sport United sem er samstarfsverkefni Samfés, Ungdomsringen og Ungdom og Fritid.

Við þökkum félagsmiðstöðvum Kópavogs fyrir samvinnuna á mótinu sem er komið til að vera í Digranesi.

Það var frítt að vera með á mótinu og kostaði allt í sjoppunni 100-150 kr. (gos, vatn, nammi og pizza).

Nánari upplýsingar um mótið og framtíðarsýn rafíþróttastarf Samfés veitir Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samfés s. 8975254.