SamFestingurinn 2024

}

27.5.2024

SamFestingurinn 2024

Þann 3. maí var Laugardalshöllin þéttsetin af um 4500 unglingum frá öllum félagsmiðstöðvum landsins sem söfnuðust saman á Samfestingnum, einum stærsta unglingaviðburði á Íslandi. Um 450 starfsfólk úr öllum félagsmiðstöðvum á landinu sáu um gæslu á viðburðinum. Viðburðurinn gekk eins og í sögu og er sönnun þess að með góðu skipulagi og fagfólki í starfi er hægt að halda stórviðburð fyrir unglinga með glæsibrag. Viðburðurinn hefur verið haldinn árlega síðan 1991 og hefur vaxið gríðarlega í gegnum árin.

Mikil vinna liggur að baki svona stórum viðburði og mikilvægt er að hrósa bæði ungmennunum og starfsfólki sem gerðu þetta allt saman mögulegt. Samfés er stolt af því að geta boðið upp á vettvang þar sem unglingar geta notið tónlistar, dansað og skemmt sér í öruggu og vímulausu umhverfi.

Á þessum viðburði leggjum við gríðarlega mikla áherslu á að öryggi þeirra ungmenna sem sækja viðburðinn. Þátttakendur eru flesti mjög virkir í starfi félagsmiðstöðvanna og starfsfólk þekkir hópinn sinn vel. Við vorum í samstarfi í ár við Flotann, Götuvitann og Félkó, sem eru vettvangs starf á vegum sveitarfélaganna Reykjavík, Hafnarfjarðar og Kópavogs. Þetta samstarf var ómetanlegt og hjálpaði mikið til við að tryggja öryggi á viðburðinum fyrir utan höllina á meðan hann fór fram. Við vorum einnig í mjög góðu samstarfi við lögregluna, sem var sýnileg á svæðinu bæði á meðan viðburðinum stóð og eftir hann. Samvinna við alla þessa aðila var einn þáttur í því að tryggja að allir gátu skemmt sér vel. 

Nýjungar á SamFestingnum í ár voru meðal annars útisvæði til að fá frískt loft og rólegt rými fyrir ungmenni til að kúpla sig út ef þau þurftu. Þetta var allt gert eftir óskum ungmennaráðs Samfés og bætti upplifun allra þátttakenda af föstudagskvöldinu til muna.

Ungmennaráð Samfés sér um að velja tónlistaratriðin fyrir ballið. Í ár komu fram DJ Dóra Júlía, Aron Can, Stuðlabandið, Bríet og Herra Hnetusmjör héldu uppi fjörinu. Einnig komu fram tvær unglingahljómsveitir, Glymur og Slyth, sem stóðu sig frábærlega og sýndu mikla hæfileika á sviðinu, það verður spennandi að fylgjast með þeim áfram á næstu árum.

 Það er ljóst að Samfestingurinn er orðin ómissandi hluti af félagslífi ungmenna á Íslandi og er mikilvægur vettvangur fyrir þau að koma saman, skemmta sér og sýna hæfileika sína.

Myndir og myndbönd frá viðburðinum verða birt á heimasíðu Samfés og á samfélagsmiðlum samtakanna fljótlega, svo fylgist með!

Samfés þakkar öllum þeim sem tóku þátt í að gera SamFestinginn 2024 að einstökum viðburði og hlökkum til að sjá ykkur öll aftur á næsta ári!

Söngkeppni Samfés 2024

Laugardaginn 4. maí síðastliðinn var svo haldin hin árlega Söngkeppni Samfés í Laugardalshöll, þar sem þrjátíu efnileg atriði stigu á svið og sýndu hæfileika sína. Samfés hefur staðið að skipulagi og framkvæmd keppninnar síðan 1992 og er hún sýnd á RÚV í beinni útsendingu.

Dómnefndina skipuðu Júlí Heiðar söngvari og leikari, Saga Matthildur söngkona, og Birgir Steinn söngvari, en Eva Ruza samfélagsmiðlastjarna var kynnir. Í dómarahléi komu fram strákarnri í VÆB, Nóri- sigurvegari Rímnaflæðis 2023, og Ína Berglind, sigurvegari Söngkeppni Samfés 2023, sem söng sigurlagið sitt „Tilgangslausar settningar“.

 

Úrslitin voru eftirfarandi:
  • 1. Sæti : Guðjón Þorgils Kristjánsson með lagið „What Was I Made For“ frá félagsmiðstöðinni Skýjaborg
  • 2. sæti : Íris Alma Kristjánsdóttir með lagið „Proud“ úr félagsmiðstöðinni Tún
  • 3. sæti : Hljómsveitin Basl með lagið „Zombie“ úr félagsmiðstöðinni Elítan

Myndir og myndbönd frá viðburðinum verða birt á heimasíðu og samfélagsmiðlum Samfés, svo fylgist með! Einnig er hægt að sjá keppnina í heild sinni á heimasíðu RÚV: Söngkeppni Samfés 2024. Við þökkum öllum þátttakendum, starfsfólki og samstarfsaðilum fyrir að gera þessa keppni mögulega og hlökkum til næsta árs..